Sunday, February 14, 2016

Skúffukakan sem allir elskaÞetta er litli gríslingurinn minn á öskudaginn, hún Ingibjörg Rósa var svo dásamleg í þessum kjól með þessi krúttlegu eyru að mamman átti ekki orð. Þessa dagana eru grísir í miklu uppáhaldi og búningurinn vakti mikla lukku hjá dömunni minni. Hún er orðin eins og hálfs árs og gleður alla í kringum sig á hverjum degi, við Haddi erum einstaklega heppin. Á morgun byrjar hún svo í leikskóla sem verður ekkert smá skemmtilegt, að vísu finnst mér tíminn alltof fljótur að líða og ég finn að maður þarf svo sannarlega að njóta stundarinnar núna. 

Að því sögðu langar mig að deila með ykkur uppskrift að æðislegri súkkulaðiköku sem allir elska, einföld skúffukaka sem tekur enga stund að búa til og tilvalið að baka í dag á sjálfum valentínusardeginum. Ég hef gaman af öllum dögum sem minna okkur á að veita fólkinu okkar sérstaka athygli. Það er brjálað að gera hjá öllum á hverjum degi og stundum gleymast einfaldir hlutir eins og bara það að vera til með fólkinu okkar núna, þá er ég að meina að slökkva á tölvu, síma og sjónvarpi og setjast við borðstofuborðið og fá sér köku. Ég vona svo sannarlega að þið eigið eftir að eiga góðan dag, veðrið er æði og ég vildi gjarnan eyða deginum með fólkinu mínu en ég er að fara í hagfræði lokapróf á morgun og mun þess vegna eyða honum innandyra við lestur. 

Skúffukakan sem allir elska 


*1 bolli = 2 1/2 dl
 • 3 bollar Kornax hveiti
 • 2 bollar sykur
 • 3 egg       
 • 2 bollar hreint jógúrt 
 • 1 bolli ljós og bragðlítið olía
 • 5 msk kakó 
 • 2 tsk lyftiduft 
 • 1 tsk matarsódi
 • 2 tsk vanillusykur eða dropar 
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C (blástur). Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið er orðið silkimjúkt. Smyrjið ofnskúffu og hellið deiginu í skúffuna. Bakið við180°C í 20 - 25 mínútur. Tíminn fer auðvitað eftir ofnum, eins og alltaf. Gott er að athuga baksturinn með því að stinga prjóni í kökuna, prjóninn á að koma hreinn út og þá er kakan klár. Leyfið kökunni að kólna áður en þið setjið á hana kremið. 

Krem 

 • 200 g suðusúkkulaði
 • 100 g smarties súkkulaði (eða annað gott, þetta var það súkkulaði sem ég átti til)
 • 40 g smjör 
Kókosmjöl til skrauts 

Aðferð: Bræðið súkkulaði og smjör saman við vægan hita, hellið yfir kökuna og sáldrið síðan kókosmjöli yfir. Skerið kökuna í litla bita og berið fram. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.


Saturday, February 13, 2016

Tikka Masala kjúklingur

Í síðasta þætti af Matargleði Evu fékk ég til mín góða gesti í indverska veislu með öllu tilheyrandi. Indverskur matur er brjálæðislega góður og fullkominn matur til að deila með góðum vinum. Aðalréttur kvöldsins var Tikka Masala kjúklingur sem við erum svo hrifnar af. Berið kjúklingaréttinn fram með raita sósu, hrísgrjónum og góðu naan brauði. 

Tikka masala kjúklingur

 • 3 hvítlauksrif
 • 1 msk rifið ferskt engifer
 • 3 msk sítrónusafi
 • 1 dl hrein jógúrt
 • 3 msk sítrónusafi
 • 1 tsk salti
 • ½ rautt chilialdin
 • 1 tsk kóríanderfræ
 • Handfylli saxað kóríander
 • 3 tsk garam masala 
 • 700 g kjúklingakjöt, skorið í litla bita

Aðferð: Blandið öllum hráefnum saman og skerið kjúklingakjötið í litla bita. Setjið allt í plastpoka og inn í kæli í 2 – 3 klukkstundir, best yfir nótt. Eftir þann tíma er kjúklingurinn steiktur á pönnu í 2 – 3 mínútur og síðan fært yfir í pottinn með sósunni og látið malla í 15 – 20 mínútur.

Sósan:
 • 2 – 3 msk ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 msk rifið engifer
 • ½ rautt chilialdin
 • 1 tsk túrmerik
 • 1 tsk kúmen
 • 1 tsk múskat
 • 2 msk tómatpúrra
 • 200 g hakkaðir tómatar
 • 3 msk sýrður rjómi
 • 3 msk hrein jógúrt
 • 1 dl rjómi
 • handfylli ferskur kóríander

Aðferð: Hitið olíu á pönnu og steikið hvítlauk, engifer og chili. Bætið kryddunum út á pönnuna og hrærið. Því næst fara hakkaðir tómatar, tómatpúrra, sýrður rjómi, rjómi og hrein jógúrt saman við. Leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur og steikið kjúklinginn á meðan. Setjið kjúklinginn út í pottinn og leyfið sósunni að malla í 20 mínútur. Smakkið ykkur til með salti og pipar.


Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í Hagkaup. 
Friday, February 5, 2016

Fiskibollurnar hennar ömmu með asísku twisti


Maturinn og uppskriftirnar hennar ömmu eru mér mjög mikilvægar og passa ég mikið upp á þær. Ég hef áður deilt með ykkur uppskrift að fiskibollunum hennar ömmu Stínu sem allir ættu að prófa. Í síðasta þætti af Matargleði ákvað ég að styðjast við þá uppskrift en breyta henni örlítið og setja asískan twist á hana, það kom ansi vel út og ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessar bollur á bolludaginn. Bragðmiklar, einfaldar og fljótlegar! Akkúrat eins og þetta á að vera. 


Fiskibollurnar hennar ömmu 

14 - 16 bollur
 • 800 fiskhakk
 • 1 meðalstór laukur
 • 1/2 rautt chilialdin 
 • handfylli kóríander 
 • 1 egg 
 • 2 msk hveiti 
 • salt og pipar 
 • Ólífuolía 
 • Smjör 
Aðferð: 
 1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og maukið þar til blandan verður silkimjúk. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá er fínsaxið þið laukinn, chilialdin og kóríander og blandið öllu vel saman. 
 2. Hitið ólífuolíu og smjör á pönnu, steikið bollurnar á öllum hliðum í ca. mínútu á hlið. Setjið bollurnar í eldfast mót og inn í ofn í 15 - 20 mínútur við 180°C. Á meðan bollurnar eru í ofninum útbúið þið einfalt meðlæti t.d. ferskt salat, hrísgrjón og létta sósu. 

Létt jógúrtsósa með Wasabi

 • 1 dós grískt jógúrt 
 • 1 hvítlauksrif 
 • safi úr hálfri límónu 
 • Wasabi paste, magn eftir smekk
 • Salt og pipar 
Aðferð: 

 1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Smakkið ykkur til og kryddið með salti og pipar. Gott að geyma sósuna í kæli áður en þið berið fram. 

Hrásalat

 • Rauðkál 
 • Kínakál 
 • Safinn úr hálfri límónu 
 • 1 gulrót 
 • 1/2 rautt chilialdin 
 • Salt og pipar 
 • Handfylli kóríander 
Aðferð:

 1. Skerið grænmetið í þunnar sneiðar og blandið vel saman í skál, kreistið safa úr hálfri límónu yfir og kryddið til með salti, pipar og ferskum kóríander.


Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

Njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Öll hráefnin sem voru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

Vatnsdeigsbollur úr Matargleði Evu


Í síðasta þætti var sérstakt bolluþema í Matargleðinni og að sjálfsögðu voru vatnsdeigsbollur með rjómafyllingu á boðstólnum. Ég elska þessar bollur og borða óhóflega mikið af þeim á bolludaginn, en ég meina hann kemur nú bara einu sinni á ári. Því ekki að taka forskot á sæluna um helgina og baka þessar ljúffengu bollur kæru vinir? 

 

Vatnsdeigsbollur

10 - 12 bollur 
 • 100 g smjör 
 • 2 dl vatn
 • 2 msk sykur
 • 110 g hveiti
 • 3 stór egg
Aðferð:
 1. Hitið ofninn í 200°C. (blástur)
 2. Hitið vatn, smjör og sykur saman í potti og látið suðuna koma upp. (gott er að láta vatn, sykur og smjör sjóða vel saman í 2 - 3 mínútur áður en hveitið er sett út í. 
 3. Setjið hveiti út í, hrærið saman og látið kólna í 4 mínútur.
 4. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í eitt í einu, sláið vel saman á milli. Það er líka ágætt að setja deigið í hrærivélaskál og hræra þannig saman. 
 5. Setjið í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökunarplötu en það má auðvitað gera það líka með tveimur skeiðum. 
 6. Bakið bollurnar í 25 – 30 mínútur, það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum því þá er hæta á að bollurnar falli.  


Nutella - og bananarjómi

 Þetta er fyllingin sem þið óskið að taki aldrei enda, hún er of góð til að vera sönn. (en þetta er engu að síður sönn saga)
 • 4 dl rjómi 
 • 1 banani 
 • 3 msk. Nutella 

 Aðferð: 
 1. Þeytið rjóma. 
 2. Maukið banana og Nutella saman með töfrasprota eða stappið vel saman með gaffli. 
 3. Blandið bananablöndunna varlega saman við rjómann með sleif.


Jarðarberjafylling

 Klassísk og góð fylling sem fær mig til þess að fara aftur í tímann þegar ég var yngri og fékk pening hjá mömmu til þess að hlaupa út í bakarí og kaupa mér eina gómsæta bollu með dísætu bleiku kremi. Nostalgían í hámarki við hvern bita...

 • 1 askja jarðarber (10 - 12 stk)
 • 4 dl rjómi 
 • 2 tsk. flórsykur
  Aðferð:
  1. Maukið jarðarberin með töfrasprota eða með gaffli.
  2. Þeytið rjóma og sigtið flórsykur saman við í lokin
  3. Blandið jarðarberjamaukinu varlega saman við rjómablönduna með sleif.  Ekki missa af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

  Njótið vel. 

  xxx

  Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


  Öll hráefni sem eru notuð í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups.   Stökkar Berlínarbollur með jarðarberjasultu


  Í síðasta þætti var sérstakt bolluþema í Matargleðinni en það styttist óðum í bolludaginn sem í mínum bókum er einn besti dagur ársins. Í þættinum fór ég yfir fjórar bollu uppskriftir og ein af þeim var að sjálfsögðu stökkar berlínarbollur með jarðarberjasultu, það er eitthvað við þessar bollur sem ég fæ ekki nóg af. Hvílíkt lostæti, ég hafði þær fremur smáar sem er enn skemmtilegra. Ég mæli með að þið prófið þessar um helgina, best er auðvitað njóta þeirra strax á meðan þær eru enn heitar. 


  Berlínarbollur með jarðarberjasultu

  14 - 16 litlar bollur 

  • 80 smjör, brætt 
  • 1 dl mjólk 
  • 2 egg, léttpískuð
  • 300 g hveiti 
  • 2 tsk þurrger 
  • 1 tsk lyftiduft 
  • ½ tsk salt 
  • 1 tsk sykur 
  • 1 tsk vanillysykur 
  • Jarðarberjasulta 
  • Ljós olía sem má djúpsteika
  • Sykur, til þess að velta bollunum upp úr  

  Aðferð: 
  1. Bræðið 80 grömm af smjöri við vægan hita, takið pottinn af hellunni og bætið mjólk, sykri  og þurrgeri saman við þegar blandan hefur kólnað. Um leið og það byrjar freyða í skálinni er gerblandan tilbúin. 
  2. Setjið þurrefnin saman í hrærivélaskál og blandið, hellið vökvanum saman við hægt og rólega. Hnoðið í 6 – 7 mínútur, ef deigið er of klístrað bætið þið við smávegis af hveiti. 
  3. Setjið hveiti á borð og hnoðið örlítið með höndum og mótið kúlu. 
  4. Færið deigið yfir í skál, setjið viskastykki yfir og látið hefast á heitum stað í rúmlega klukkustund eða þar til deigið hefur tvöfaldast að stærð. 
  5. Stráið hveiti á borðflöt og fletjið deigið út, gott er að miða við að deigið sé 1 – 2 cm þykkt.
  6. Skerið kökurnar út með glasi t.d. kampavínsglasi. Bleytið helminginn af kökunum með eggi, teygið þær aðeins og setjið eina teskeið af sultu á deigið. 
  7. Setjið tvær kökur saman og klemmið kanntana vel saman. Setjið á pappírsklædda ofnplötu í 30 mínútur og leyfið bollunum að hefast. 
  8. Hitið olíu í rúmgóðum potti, þegar olían er tilbúin steikið þið bollurnar í 3 – 4 mínútur, passið að steikja þær á báðum hliðum og færið síðan yfir í skál og veltið upp úr sykri. 

  Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

  Njótið vel. 

  xxx
  Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

  Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


  Sunday, January 31, 2016

  Tryllt Snickerskaka

  Eftir að ég var búin að setja inn uppskrift að æðislegri rjómaostabrownies í morgun þá kom yfir mig löngun í súkkulaði- og karamelluköku. Ég skaust út í búð og keypti þau hráefni sem mig vantaði,   Snickers kaka skyldi það nú vera. Ég elska og þá meina ég elska Snickers súkkulaði, hvað þá Snickers köku? Mamma mía! Ég setti inn myndband að aðferðinni á Instagram og á Facebook síðu bloggsins og aldrei áður hef ég fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift. Ég varð hreinlega að setja hana inn strax þrátt fyrir að ég hafi fyrr í dag sett inn uppskrift að brownies. Við fáum ekki nóg af súkkulaði. Kakan er afar einföld og fljótleg, þið hafið þess vegna nægan tíma til þess að skjótast út í búð og skella í þessa fyrir eftirrétt kvöldsins. 

  Snickers brownies 


  Brownies uppskrift:
  • 150 g smjör
  • 250 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði 
  • 200 g sykur 
  • 2 stór egg 
  • 100 g KORNAX hveiti
  • 1 tsk vanillusykur 
  • 2 msk kakó
  Karamellufylling
  • 1 krukka Dulce de leche, karamellusósa 
  • 5 góðar matskeiðar af hnetusmjöri 
  • 1 dós sykurpúðakrem, sjá mynd hér að neðan
  • 100 g ristaðar kasjúhnetur 
  Súkkulaðikrem:

  • 250 g mjólkursúkkulaði

  Aðferð: 
  • Hitið ofninn í 170°C (blástur).
  • Bræðið smjör við vægan hita, saxið súkkulaðið og bætið því við smjörið og leyfið því að bráðna í smjörinu. Takið pottinn af hellunni og leyfið súkkulaðiblöndunni að kólna. 
  • Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu, hveiti og kakó saman við og hrærið þar til deigið er silkimjúkt. Í lokin hellið þið súkkulaðiblöndunni við og blandið vel saman. 
  • Hellið deiginu í pappírsklætt form (20x20) og bakið við 170°C í 30 mínútur. Það er mjög mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg í forminu. 
  • Hellið karamellufyllingunni ofan á súkkulaðiköku og kælið. 
  • Bræðið mjólkursúkkulaði yfir vatnsbaði og hellið yfir kökuna í lokin. Kælið og þegar súkkulaðið er orðið hart þá er kakan tilbúin, skerið hana í bita og berið strax fram.  


  Þessa köku ættu allir að prófa. Njótið vel <3

  xxx
  Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


  Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.