Sunday, May 22, 2016

Frönsk súkkulaðikaka með silkimjúkri karamellusósu


Vikan flaug hratt og örugglega, ég sinnti blogginu mjög lítið í vikunni en ég var að klára misserisverkefni í skólanum sem átti hug minn allan. Ég og hópurinn minn rannsökuðum hvernig íslensk fyrirtæki nota Snapchat í sínu markaðsstarfi, virkilega áhugaverð rannsókn að okkar mati og höfðum við gaman af því að vinna hana (á köflum langaði okkur líka til þess að gefast upp, haha).

Helgarfríið hefur þess vegna verið einstaklega ljúft, að hafa ekki stórt verkefni hangandi yfir sér er býsna gott og gaman að geta verið með fjölskyldunni. Ég ætla líka að baka þessa köku hér sem ég gjörsamlega elska og ég veit að fólkið mitt gerir það líka. Það kannast nú flestir við uppskriftina að frönsku súkkulaðikökunni sem er bæði einföld og hriklega góð, en prófið hana endilega með þessari karamellusósu sem bráðnar í munni... berið kökuna fram með ferskum hindberjum en þau fara einstaklega vel saman með súkkulaði. 

Frönsk súkkulaðikaka með karamellusósu

Botn:

 • 200 g sykur
 • 4 egg
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 200 g smjör
 • 1 dl KORNAX hveiti
Aðferð:
 1. Hitið ofninn í 180°C (blástur). 
 2. Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós. 
 3. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita. 
 4. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin. 
 5. Smyrjið bökunarfom eða setjið (eins og mér þykir best) bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið. 
 6. Bakið kökuna í 30 mínútur.  

Ljúffeng karamellusósu 

 • 1 poki Góa kúlur 
 • 1 dl rjómi 
Aðferð:

 1. Setjið kúlurnar og rjóma í pott, bræðið kúlurnar í rjómanum við vægan hita. Hrærið í sósunni þar til hún verður silkimjúk. Kælið áður en þið hellið sósunni yfir kökuna. 
Skreytið kökuna gjarnan með ferskum hindberjum og berið strax fram. 


Ég vona að þið eigið góðan sunnudag framundan kæru vinir. 

Njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.


Wednesday, May 18, 2016

Geggjað kjúklingapasta með heimagerðu pestó

Ég átti frábæra helgi með fólkinu mínu, en helgin byrjaði á vinkonudekri á Hótel Grímsborgum sem var algjört æði og ég ætla að segja ykkur betur frá því í vikunni. Svo fórum við fjölskyldan á Akranes og skutluðumst síðan á Hvolsvöll. Það var svo gott að komast aðeins í sveitina, leika við Ingibjörgu Rósu og almennt njóta. Allavega á milli þess sem ég vann í lokaritgerðinni sem ég og hópurinn minn skiluðum af okkur í gær og á morgun verjum við ritgerðina og þá er komin smá skólapása. Ekki nema einn áfangi eftir og því sé ég glytta í sumarfrí í skólanum... sem verður kærkomið.

Þetta var semsagt mjög góð helgi og ég vona að þið hafið öll notið hennar. Nú er hins vegar komin ný vika og tími til kominn að deila með ykkur einfaldri uppskrift sem tekur enga stund að búa til. Þessi uppskrift er að mínu mati eftirlæti allra og svo einföld að þið eigið ekki eftir að trúa því. Ég byrja á því að deila uppskriftinni að pestóinu sem er algjör snilld og hægt að borða með nánast öllu, sérstaklega gott í pastarétti eins og í þessa hér fyrir neðan. Ég sýndi einnig aðferðina á Instagram reikningnum mínum en þið finnið mig þar undir @evalaufeykjaran - sem og á Snapchat. 


Gómsætt basilíkupestó með límónu

Einföld matreiðsla 
Tími frá upphafi til enda : 25 mínútur 

 • Handfylli fersk basilíka 
 • Handfylli spínat
 • 100 g ristaðar kasjúhnetur 
 • 50 g ferskur parmesan ostur 
 • Safinn úr hálfri límónu 
 • Salt og pipar, magn eftir smekk 
 • 1-2 dl ólífuolía, magn eftir smekk 
Aðferð: 

 1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Þið stjórnið þykktinni á pestónu með ólífuolíunni. Berið strax fram og njótið. Kjúklingapasta með heimagerðu pestó 

 • 300 g penne heilhveiti pasta 
 • 2 kjúklingabringur
 • 1 askja kirsuberjatómatar 
 • 1/2 kúrbítur 
 • 3 hvítlauksrif 
 • Ólífuolía 
 • Kjúklingakrydd
 • Salt og pipar 
 • 1 poki litlar Mozzarella kúlur (eða ein stór) 
Aðferð:

 1. Steikið kjúklingabringurnar á hvorri  hlið í 2 mínútur, kryddið til með kjúklingakryddi, salti og pipar. Setjið bringurnar í eldfast mót, skerið niður kirsuberjatómata, kúrbít og hvítlauk og bætið í formið með bringunum. Eldið bringurnar og grænmetið í ofni við 180°C í 20 mínútur. 
 2. Sjóðið pasta upp úr söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
 3. Útbúið pestó, uppskriftin er hér að ofan. 
 4. Skerið kjúklingabringurnar í litla bita og blandið öllum hráefnum saman í skál. 
 5. Í lokin skerið þið litlar mozzarella kúlur í tvennt og bætið við. 
Berið strax fram og njótið vel. 


Ingibjörg Rósa var alsæl með réttinn og hvetur að sjálfsögðu alla til þess að prófa. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Thursday, May 12, 2016

Frískandi berjaboozt


Frískandi berjaboozt  kemur manni í stuð, ég er að segja ykkur þetta satt. Þessa dagana er ég að vinna í nýjum þáttum og að klára lokaritgerð í viðskiptafræðinni. Ég þarf þess vegna góða orku til að koma mér í gegnum annasama daga. Boozt eru frábær að því leytinu að hægt er að skella allskonar góðum hráefnum saman og yfirleitt er útkoman ljúffeng, svo lengi sem það er ískalt og fallegt á litinn þá er ég glöð. 
Shake it out - Hlustið á þetta lag og shake-ið ykkur í gang á þessum fína fimmtudegixxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Tuesday, May 10, 2016

E U R O V I S I O N - R É T T I R


Karamellupoppið sem allir elska og ég fæ ekki nóg af.

 Mjúk súkkulaðikaka með ljúffengri karamellufyllingu er allaf góð hugmynd. 
Skyrkaka með hvítu súkkulaði og ferskum berjum, það tekur enga stund að búa til kökuna og er hún algjört æði.
Besta og vinsælasta uppskriftin á blogginu - ég er að segja ykkur það satt. Tryllingslega góð snickers kaka sem þið verðið að prófa. 
 Ostasalat með góðu kexi eða brauði er súpergott og einfalt. 

 Gleðilega eurovision viku kæru lesendur og áfram Gréta og hennar teymi!!

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.


Monday, May 2, 2016

Vikuseðill


Mánudagsfiskurinn: Æðisleg bleikja í teriyaki sósu með fetaosti. Þessi réttur er afskaplega einfaldur og fljótlegur sem er alltaf mikill plús á þreyttum mánudegi. 
Þriðjudagur: Æðisleg rif með asískum blæ. Þetta er rétturinn sem setningin "eitt sinni smakkað, þú getur ekki hætt" á vel við. 
Miðvikudagur: Mexíkóskt kjúklingasalat með mexíkó-ostasósu og Doritos.
Fimmtudagur: Á uppstigningardaginn ætla ég að elda fyllt cannelloni með spínati og nóg af osti... algjört sælgæti. 
Föstudagur: Á mínu heimili er hefð fyrir pizzaáti á föstudögum og ætla ég að gera þessa ómótstæðilegu bbq pönnupizzu sem er borin fram með klettasalati, tómötum og nýrifnum parmsesan. 


Helgarmaturinn: Um helgina ætla ég að elda uppáhalds súpuna mína en það er humarsúpan hennar mömmu sem ég elska og elda við sérstök tilefni. 

Helgarbaksturinn

Hér koma tvær hugmyndir að helgarbakstrinum annars vegar ljúffeng marensterta með karamellukremi og hins vegar dúnmjúkar morgunverðarbollur sem allir ættu að prófa.
Ég vona að þið eigið góða viku framundan.

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaupsþ

Saturday, April 30, 2016

Morgunverðarbollur og bráðhollt túnfiskssalat

Á morgnana og þá sérstaklega um helgar elska ég að baka morgunverðarbollur í ró og næði. Það gefst ekki mikill tími til baksturs á morgnana á virkum dögum en ég nýt þess í botn á laugardögum, að hella upp á gott kaffi og baka brauð í rólegheitum. En takið eftir að hér er ég að lýsa fullkomnum laugardegi, þeir byrja nú ekki allir svona. Ég fékk svo góðar bollur hjá vini okkar í morgunkaffi um daginn en þær bollur innhéldu kotasælu. Ég hef ekki hætt að hugsa um bollurnar sem ég fékk í morgunkaffinu og ákvað þess vegna að prófa mig áfram í morgunbollubakstri með kotasælu. 

Kotasælan gerir það að verkum að bollurnar verða dunmjúkar og góðar, ég elska kotasælu og nota hana mjög mikið en hafði aldrei prófað hana í brauðbakstur. Hún kom skemmtilega á óvart og þessar bollur eru æðislegar, ég gaf meðal annars foreldrum mínum og tengdaforeldrum bollur og voru þau ansi hrifin.  Ekki færu þau að plata :) 

Hér kemur uppskriftin að kotasælubollum og bráðhollu túnfiskssalati sem ég geri oft og þykir alltaf svakalega gott. 

Morgunverðarbollur með kotasælu

Brauðbakstur 
Einfalt 
Tími frá byrjun til enda:  90 mínútur 
Uppskriftin gefur ca. 22 bollur (fer eftir stærðinni sem þið kjósið) 

Hráefni 
 • 100 g brætt smjör
 • 4 dl nýmjólk
 • 1 bréf þurrger (12 g bréfið)
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk salt
 • 400 g kotasæla
 • ca. 900 g + aðeins meira KORNAX hveiti
Aðferð:
 1. Bræðið smjör í potti, bætið mjólkinni, þurrgerinu og hunanginu saman við og hrærið vel saman.
 2. Hellið blöndunni í hrærivélaskál ásamt saltinu, kotasælunni og hveitinu.
 3. Hnoðið deigið í hrærivélinni í um það bil 8 mínútur. (Það tekur aðeins lengri tíma að gera það í höndunum)
 4. Stráið hveiti á borðflöt og hnoðið deigið í smá stund með höndunum og mótið eina stóra kúlu.
 5. Færið kúluna yfir í hreina skál og leggið viskastykki yfir skálina. Leyfið deiginu að hefast í rúmlega klukkustund eða þar deigið hefur tvöfaldast að stærð.
 6. Hitið ofninn í 200°C (blástur)
 7. Skiptið deiginu niður í jafn stóra bita og mótið bollurnar.
 8. Leggið bollurnar á pappírsklædda ofnplötu.
 9. Penslið bollurnar með eggi og sáldrið birkifræjum yfir.
 10. Bakið við 200°C í 15 mínútur.

Gott túnfiskssalat er algjört sælgæti, ég elska þessa uppskrift þar sem hún er afar einföld og alls ekki óholl. Mér finnst stundum þegar ég kaupi tilbúið túnfiskssalat út í búð að það sé alltof mikið af majónesi í salatinu, ekki það að ég borði ekki majónes en það má ekki yfirgnæfa salatið. Þessi útgáfa er ekki bara góð heldur er hún líka bráðholl- ég segi ykkur það satt. 

Létt og gott túnfiskssalat 

 • 1 dós túnfiskur í olíu (olían sigtuð frá)
 • 3 msk sýrður rjómi (ég nota frá MS í bláu dósinni)
 • 1/2 rauð paprika 
 • 1/2 rauðlaukur 
 • 2 harðsoðin egg 
 • Salt og nýmalaður pipar 
Aðferð: 
 1. Byrjið á því að sjóða eggin í 5 - 6 mínútur, kælið eggin svo í köldu vatni áður en þið skerið þau afar smátt. 
 2. Skerið papriku og rauðlauk afar smátt niður. 
 3. Blandið öllum hráefnum saman og kryddið til með salti og pipar. 
 4. Best er að geyma salatið í kæli í lágmark hálftíma áður en þið ætlið að bera það fram. 
Salatið er himneskt með þessum morgunverðarbollum!


Njótið vel og ég vona að þið eigið góða helgi framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


 Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups