expr:class='"loading" + data:blog.mobileClass'>

Wednesday, April 16, 2014

Páskasteikin - Nautalundir með Hasselback kartöflum og piparostasósu


Þessi uppskrift miðast við fjóra til fimm.

Það er fátt sem jafnast á við góða steik og gott meðlæti. Þessar nautalundir eru mjög bragðgóðar og safaríkar.

Nautalundirnar

1 kg nautalund, skorin í fjóra jafnstóra bita
svartur pipar og gróft 
sjávarsalt 
4-5 msk smjör

Hasselback kartöflur

4 stórar kartöflur
50 g smjör 
2 msk ólífuolía
maldon salt og pipar
fersk steinselja

Piparostasósa

1 peli rjómi 
½ piparostur
½ kjúklingakraftsteningur

Ferskt salat með 
smjörsteiktum perum

1 msk smjör 
2 perur
1 poki klettasalat 
1 tsk góð ólífuolía 
1 tsk balsamikedik
salt og nýmalaður pipar
fetaostur, magn eftir smekk

Nautalundir

Bræðið smjörið á pönnu. Kryddið nautalundina með salti og pipar 
og brúnið vel á öllum hliðum. Setjið hana í eldfast mót og steikið 
við 140°C í 15-20 mínútur. Látið kjötið standa á borðinu í að 
minnsta kosti 8 mínútur áður en þið berið það fram.

Hasselback kartöflur

Þessar kartöflur eru klassískt meðlæti með kjöti, rekja má þessar kartöflur til Svíþjóðar. Þær eru bæði svakalega góðar og einfaldar. 

Hitið ofninn í 220°C. Skolið kartöflurnar og skerið svo raufar í 
þær með stuttu millibili. Skerið djúpt niður en 
passið að kartaflan detti ekki í sundur. Smjör og olía eru brædd 
saman í potti. Raðið kartöflunum í ofnskúffu og hellið bræddu 
blöndunni yfir. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið 
þeim þannig vel upp úr feitinni. Stráið maldon salti og pipar yfir 
kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í 55-60 mínútur. Mér 
finnst dásemd að skera niður ferska steinselju og sáldra yfir 
kartöflurnar þegar þær eru komnar út úr ofninum. 

Piparostasósa

Þessa sósa er ljúffeng ein og sér, svo góð er hún. Hún hentar vel með kjöti, kjúkling og pastaréttum. Mæli með að þið prófið ykkur áfram með þessa sósu. 

Hitið rjóma við vægan hita í potti, skerið piparostinn í litla bita og 
bætið út í. Hrærið reglulega í pottinum, bætið ½ teningi af 
kjúklingakrafti saman við og hrærið vel í sósunni.

Ferskt salat með smjörsteiktum perum

Hitið smjör á pönnu, skerið perur í þunna strimla og snöggsteikið 
í 1-2 mínútur. Skolið klettasalatið og blandið öllum hráefnunum 
saman í skál. Perur eru einstaklega góðar þegar þær eru búnar að 
steikjast í smjöri, sætan af þeim er hreint út sagt himnesk.

Ég mæli með þessum tveimur eftirréttum, þeir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég vona að þið hafið það gott um páskana kæru vinir og njótið þess að vera með fólkinu ykkar. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Monday, April 14, 2014

LEVEL


Ég keypti mér svo fallegt fléttað hárband hjá vinkonu minni sem rekur verslunina LEVEL. Elísabet Maren er voðalega hæfileikarík og hönnunin hennar mjög falleg.

 Fléttuð hárbönd eru mjög vinsæl um þessar mundir og það er hægt að fá böndin í allskyns litum. Ég á pottþétt eftir að kaupa mér fleiri því það er svo einfalt að vera með hárið fínt ef maður er með svona fínt hárband. Ég væri til í blátt eða grænt, já svei mér þá. Ég þarf að gera mér aðra ferð til hennar Lísu fljótlega. Þið finnið LEVEL hér á facebook.

Í gær fór ég í fermingu, þá var auðvitað tilefni til þess að fara í kjól og nota fína hárbandið. Það er líka agalega gaman að punta sig þegar maður er ófrískur. Nú er ég komin á 30 viku sem þýðir að það er ekki langt eftir. Ég er orðin ferlega spennt. 

Ég vona að ykkar vika fari vel af stað og ég mæli með að þið skoðið úrvalið hjá henni Lísu í LEVEL. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, April 13, 2014

Bleik rósakaka.


Bleik rósakaka í tilefni dagsins. 

Gleðilegan sunnudag. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Saturday, April 12, 2014

Nýbakað og rjúkandi heitt kaffi


Það er ekki að ástæðulaus að laugardagsmorgnar eru í sérstöku eftirlæti. Ég byrja yfirleitt laugardaga á góðum morgunverði. Að þessu sinni voru það nýbökuð crossaint (það væri gaman að segja ykkur frá því ef ég væri búin að baka þau sjálf en það er nú ekki svo gott, keypti frosin í Krónunni og hitaði upp í morgun). Nýbakað og gómsætt, lyktin af bökuðu brauði og nýlöguðu kaffi er dásamleg, nú er ég södd og sæl og tilbúin í helgina. Ég vona að ykkar morgun fari vel af stað. 

Góða helgi. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, March 23, 2014

Instagram & Prentagram. @evalaufeykjaran

 1. Morgungöngutúr í Vesturbænum. Mjög fallegur dagur. 
2. Bröns hér heima við með ömmu og mömmu, ansi ljúft. 
 3. Það er fátt sem slær nýbakaðari súkkulaðiköku við.
4. Fallegir túlípanar fegra heimilið. 
 5. Ég hitti hann Hadda sem er yfirkokkur á Hótel Rangá og við elduðum saman dásamlega rétti sem eru vinsælir á hótelinu.
6. Kaffi, kaka og skemmtileg vinkona á sunnudegi. 
 7. Nú er ég byrjuð í tökum á fullu fyrir nýjan matreiðsluþátt sem fer í loftið í byrjun april á Stöð 2. Ég heimsótti Svavar Örn og Daníel og eldaði með þeim. Þeir eru svo frábærir og miklir sælkerar. 
8. Ég  er að sigla inn í 27 viku meðgöngunnar og er aðvitað rígmontin með stækkandi maga. 

Eins og ég hef oft sagt við ykkur áður þá er ég mjög hrifin af Instagram appinu og nota það talsvert mikið. Það er ótrúlega gaman að eiga mikið af myndum, þær eru dýrmætar. Ég pantaði mér ramma með myndum hjá Prentagram og ég er mjög ánægð með útkomuna. Ég mæli með að þið kíkið inn á vefsíðu Prentagram og kynnið ykkur þá þjónustu sem þau bjóða upp á. 

Annars vona ég að þið hafið haft það reglulega gott um helgina, sjálf var ég í miklum rólegheitum og það er bara stórgott. Vel úthvíld fyrir komandi viku. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Friday, March 7, 2014

Föstudagsgleði


Þessi vika hefur flogið áfram, ég hef ekki haft tíma til þess að stinga nefinu hingað inn á bloggið og ekki náð að deila uppskrift með ykkur. En ég ætla að bæta úr þessu bloggleysi um helgina og þá fáið þið uppskrift að dásamlegri helgarköku. 

Í dag er mánuður í að þættirnir mínir hefjist á Stöð 2. Þessa dagana er því nóg að gera í sambandi við þættina, þeir verða ólíkir þeim sem ég var með á Stöð 3 og ég hlakka mikið til þess að deila með ykkur nánari lýsingu á þáttunum þegar nær dregur. 

Annars vona ég að þið hafið það sem allra best og eigið stórkostlega helgi framundan með fólkinu ykkar. Sjálf ætla ég að eyða helginni í sumarbústað með vinkonum mínum. Það er ávísun á góða helgi. 

Helgarkveðja

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, March 1, 2014

Fullkomin byrjun á deginum

 Fyrir mér er þetta fullkomin byrjun á deginum, að fá mömmu og ömmu í morgunmat til mín áður en við förum út að rölta um bæinn. Við förum saddar og sáttar út í daginn. Það er svo notalegt á helgum að nostra svolítið við morgunmatinn og fá góða gesti í heimsókn. 


Þetta boozt er svakalega gott og ferskt. Í booztið fer frosið mangó, frosin blönduð ber, banani, chia fræ, kókosvatn, superberries safi, smá agavesíróp og kókosflögur ofan á. Hressandi morgunkokteill. 

Ég vona að ykkar dagur fari vel af stað kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Friday, February 28, 2014

FöstudagskokteillinnGleðilegan föstudag kæru lesendur. Veðrið er búið að vera dásamlegt í dag og það verður allt betra þegar sólin skín. Ég fékk mér ljúffengan föstudagskokteil áðan, ávextir í kokteilaglasi með smá piparmyntusúkkulaði. Fyrst við erum að tala um ávexti og súkkulaði þá er ég alveg í sólgin í súkkulaðihjúpuð jarðarber, það er fátt betra. Mæli með að þið gæðið ykkur á góðum ávöxtum með súkkulaði um helgina.

Dökkt súkkulaði, hvítt súkkulaði og jarðarber. Ljúffengt konfekt. 

Ég vona að þið eigið góða helgi framundan. Ég vona að veðrið haldi áfram að vera svona fínt og svo er auðvitað bolludagurinn á mánudaginn (já ég er mjög spennt) og ég ætla að baka bollur og borða þær með miklum rjóma um helgina. 

Njótið helgarinnar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Wednesday, February 26, 2014

Eddan & Freebird

Það var mikill heiður að fá að veita verðlaun fyrir barnaefni ársins á Eddunni s.l. helgi. Mig langaði auðvitað til þess að vera fín á hátíðinni og fór því að leita mér að kjól. Fyrir valinu varð þessi fallegi kjóll frá Freebird. Ég er afskaplega hrifin af Freebird merkinu og ég hvet ykkur kæru lesendur að kíkja þangað. Búðin er staðsett á Laugaveginum. Það er mjög góð útsala á flestum vörum og því er tilvalið að finna sér kjól fyrir árshátíðarnar og sumarbrúðkaupin sem framundan eru. 

Kjólarnir eru svo ævintýralega fallegir.xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir Tuesday, February 25, 2014

Laxatakkó. Einfalt, hollt og gott!


Mér finnst nauðsynlegt að borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í vikunni. Það þýðir þó aldeilis ekki að það þurfi endilega að vera soðin ýsa. Það er mjög skemmtilegt að matreiða fisk því möguleikarnir eru svo margir. Ég var að horfa á matreiðsluþátt um daginn og í þættinum var verið að útbúa laxatakkó, ég fylgdist mjög vel með og ákvað að prófa að útbúa laxatakkó. Þessi einfaldi réttur smakkaðist mjög vel. Ferskur og bragðmikill, ég mæli þess vegna með að þið prófið að útbúa þennan rétt kæru lesendur. 

Laxatakkó
Fyrir þrjá til fjóra

Uppskrift. 
 • 600 - 700 g lax, skorinn í litla teninga
Kryddlögur
 • 2 msk. Olía 
 • 1 tsk. paprikukrydd
 • 1/2 tsk. cummin
 • salt og pipar, magn eftir smekk 
 • 1 msk. smátt saxað kóríander 
 • 3 - 4  smátt söxuð hvítlauksrif
 • 1/2 chilialdin, fræhreinsað og smátt skorið
Aðferð: 

Blandið öllu saman í skál. Hreinsið fiskinn og skerið í litla teninga, blandið fiskinum vel saman við kryddlöginn. Best er að geyma fiskinn í 2 - 3 klst í kæli. 

Steikið fiskinn í örfáar mínútur á pönnu við miðlungshita. Þegar fiskurinn er klár þá setjið þið hann í skál og kreistið safa úr 1/2 límónu (lime) yfir. Saxið kóríander, magnið fer eftir smekk og dreifið yfir fiskinn. Það getur líka verið gott að sáldra smávegis af salti og pipar yfir.

Mangósalsa. 

1 ferskt mangó í teningum
1 rauðlaukur, meðalstór fínsaxaður
½ agúrka, smátt skorin
10 kirsuberjatómatar, smátt skornir
1 msk fínsaxaður kóríander
1 meðalstór lárpera
safi og rifinn börkur af ½ límónu (lime)
1 tsk gróft salt
Ferskmalaður svartur pipar, magn eftir smekk

Aðferð: Blandið öllu sem er í uppskriftinni vel saman og geymið í kæli í 30 mínútur.

Hitið takkóskeljar í ofni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, þið getið auðvitað notað heilhveitivefjur líka. Berið fiskinn fram í takkóskeljum með salati t.d. spínati, mangósalsa, rifnum osti og sýrðum rjóma. Það er líka gott að saxa niður kóríander og sáldra yfir í lokin. Ég er mjög hrifin af kóríander en það er auðvitað smekksatriði. 

 Njótið vel!


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Monday, February 17, 2014

Sautjándi febrúar

Þó það hafi verið sérlega ljúft um helgina þá er ég meira en tilbúin í nýja viku. Ég byrjaði daginn á hafragraut eins og aðra daga, Það er nóg framundan í vikunni og mörg ansi skemmtileg verkefni. Veðrið er fallegt og þá er nú alltaf allt aðeins betra, mánudagar geta nefnilega verið mjög góðir dagar ef við bara gerum þá að góðum dögum. 

Besti grauturinn í morgunsárið. Hafragrautur með 1/2 stöppuðum banana, hörfræjum, bláberjum og smá agavesírópi. 
Ristað brauð með osti og sultu er best um helgar en þessi er bestur á virkum dögum. 

Ég vona að þið eigið góðan mánudag framundan kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, February 16, 2014

Lífið Instagramað @evalaufeykjaran

1. Alltaf gaman að hitta þessa heiðursmenn.
2. Það er svo sannarlega hressandi að koma við á Joe & The Juice og fá sér góðan safa.

 3. Oreo bollakökur með hvítu súkkulaðikremi. Þið finnið uppskriftina hér
4. Fyrir viku síðan þá fór ég út að borða með vinum mínum og fögnuðum við afmæli vinkonu minnar. Og fyrir viku var ég akkúrat hálfnuð með meðgönguna. Það var því tilefni til þess að fara í kjól :)

 5. Morgunbollinn í sveitinni er miklu betri en venjulega. 
6. Fallegt útsýni og sérstaklega fallegur dagur.
 7. Eftir sunnudagslambið þá var leyfilegt að fá sér fyrsta páskaegg ársins í desert. Mér finnst alltaf svo gaman að lesa málshættina, og svo finnst mér auðvitað ekkert leiðinlegt að borða gott súkkulaði.

Ég er endurnærð eftir góða helgi í sveitinni, búin að hafa það mjög fínt. Ég vona að þið hafið haft það gott um helgina og ég vona að vikan ykkar verði góð. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Saturday, February 15, 2014

Fallegur laugardagur, stækkandi magi og pönnukökuveisla.

Við Haddi erum fyrir austan í sælunni og erum búin að eiga ansi ljúfan laugardag. Veðrið er voðlega fínt, það er auðvitað svolítið kalt en nauðsynlegt að fara aðeins út og hressa upp á sig.

Nauðsynlegt að príla svolítið og auðvitað þumalinn upp fyrir því. 
Nú er ég gengin 21 viku með litlu dömuna okkar og ég nota hvaða tækifæri sem er og held utan um stækkandi maga sem ég er svo ánægð með og pósa fyrir myndavélina ;) 


Haddi minn sætur og fínn við Seljalandsfoss. 
Já, það var svolítið kalt en fallegt var það. 
Kaffitími hjá ömmu hans Hadda, pönnukökur með rjóma og sultu. Það allra besta. Ég held svei mér þá að það sé fátt sem slær þessm pönnukökum við.

Njótið helgarinnar - það er eina vitið.

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Jarðarberja daiquiri

Ég hlakka mikið til að fylgjast með úrslitakvöldinu í Eurovision í kvöld. Ég held svakalega mikið upp á Eurovision og mér finnst alltaf jafn gaman að horfa. Undanfarin ár þá hef ég haldið Eurovision teiti og boðið vinum mínum. Eurovision er ekki allra en það geta nú flestir verið sammála um að það er alltaf gaman að hittast, blanda góða drykki og horfa saman á keppnina. 

Í kvöld kemur í ljós hvaða lag við sendum út í lokakeppnina. Það er því vel við hæfi að bjóða fólkinu ykkar heim í smá teiti. Nú þegar sólin er farin að skína er enn skemmtilegra að bjóða upp á góða drykki. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að uppáhalds kokteilnum mínum, það kannast sennilega flestir við þennan drykk. Jarðarberja daiquiri er ferskur og sérlega bragðgóður kokteill, hann er mjög einfaldur sem er mikill kostur. Það er ekki nauðsynlegt að hafa áfengi í þessum drykk, hann er jafn góður án þess. 

Þegar að ég var að vinna í bókinni minni þá fannst mér nauðsynlegt að hafa nokkra drykki með, það skapar oft svo skemmtilega stemningu í boðum að bera fram fallega og frískandi drykki (fordrykki). 


Jarðarberja daiquiri
fjögur glös

 • 1 poki frosin jarðarber (500 g)
 • handfylli fersk mynta
 • 4 tsk flórsykur
 • safi úr ½ sítrónu
 • 12-15 cl romm (má auðvitað sleppa) 
 • Það er líka gott að setja smávegis af sprite saman við, í lokin.
 • fersk jarðarber til skrauts


Aðferð:

Setjið allt saman í blandara í nokkrar mínútur, hellið í falleg glös
og skreytið með ferskum berjum. Berið strax fram og njótið.


 Ég vona að þið eigið góða helgi kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, February 14, 2014

Oreo bollakökur með hvítsúkkulaðikremi

Oreo bollakökur með hvítsúkkulaðikremi
20 - 24 bollakökur

 • 250 g smjör, við stofuhita 
 • 4 dl sykur 
 • 4 egg 
 • 4 - 5 dl mjólk (eða rjómi) 
 • 6 dl hveiti 
 • 2 - 3 tsk lyftiduft 
 • 1 tsk matarsódi
 • 2 tsk vanilla extract (eða vanillusykur)
 • 16 Oreo smákökur (1 pakki)
Aðferð: 

1. Hitið ofninn í 180°C.(blástur) 
2. Þeytið saman smjör og sykur í þrjár mínútur, bætið einu og
einu eggi saman við. Þeytið vel á milli.
3. Sigtið saman hveiti og lyftiduft a.m.k. þrisvar sinnum. Bætið
hveitiblöndunni, matarsódanum vanillu og mjólkinni saman við og þeytið mjög
vel í nokkrar mínútur þar til blandan verður orðin silkimjúk.
4. Hakkið Oreo smákökurnar í blandara eða þá bara með handaflinu í mjög smáa bita. 
5.Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið í 15-18 mínútur. 

Kælið kökurnar mjög vel áður en að þið smyrjið á þær krem.

Hvítt súkkulaðikrem
 • 220 g smjör, við stofuhita
 • 4 dl flórsykur
 • 2 tsk vanillu extract eða vanillusykur
 • 140 g hvítt súkkulaði
Þeytið saman smjör og flórsykur í nokkrar mínútur, því lengur
sem þið hrærið kremið því betri áferð verður á því. Bræðið hvítt
súkkulaði í vatnsbaði og bætið við smjörkremið ásamt vanillu.
Blandið öllu vel saman þar til kremið verður orðið ansi létt, ef
þið ætlið að nota matarlit þá bætið honum við rétt í lokin.


Ég skreytti kökurnar með Oreo smákökum, einfaldlega vegna þess að ég fæ ekki nóg af þessum kökum. 


Ég mæli með að þið prófið kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, January 31, 2014

Helgarblómin


Ég keypti þessa fallegu túlípana í gær. Það er svo gaman að eiga falleg blóm.Nú er föstudagur og helgin handan við hornið, ég vona að þið eigið öll ljúfa helgi framundan með fólkinu ykkar.

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, January 30, 2014

Guðdómleg skyrkaka með hvítu súkkulaði og ferskum berjum
Ég er yfir mig hrifin af osta- og skyrkökum. Þær eru eitthvað svo "creamy" og góðar. Ég fæ til mín svo góða gesti í mat í kvöld að ég ákvað að hafa góða köku í eftirrétt. Ég er ekki að plata ykkur þegar ég segi að þessi kaka er af einföldustu gerð, það tekur hámark 30 mínútur að búa hana til. Svo þarf hún bara að vera í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt og þá er hún tilbúin. Ég elska góðar kökur og hvað þá ef þær eru einfaldar og fljótlegar. Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa köku. Hún er virkilega góð, ég lofa ykkur því. Tilvalið að hafa hana sem eftirrétt eða þá bara í kaffitímanum. Ég er líka viss um að þessi kaka myndi nú slá í gegn í Eurovision boðum um helgina. 

Hér kemur uppskriftin. Njótið vel kæru lesendur. 


Uppskriftin er fyrir sex til átta.


Byrjum á því að mylja kexkökurnar í matvinnsluvél eða i blandaranum. Bætið smjörinu einnig saman við kexið, smjörið á að vera kalt. 

Ég notaði lausbotna pæ-form en þið getið auðvitað notað hvaða form sem er. Það er betra að nota lausbotna. Þetta form er 24x25 cm. 

Þrýstið kexblöndunni á botninn og upp með börmunum á bökunarforminu, notið bara hendurnar til þess. Það er einfaldara. 

Kælið botninn á meðan að þið útbúið fyllinguna. 

Leynivopnið í kökunni er án efa þetta dásamlega súkkulaði, hvítir súkkulaðidropar. 

Léttþeytið rjóma og leggið til hliðar. Blandið skyrinu, flórsykrinum og vanillusykrinum saman í hrærivél í örfáar mínútur. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið í smá stund (en ekki of lengi, það verður að vera silkimjúkt). Hellið súkkulaðinu út í skyrblönduna og hrærið saman með sleif. Bætið rjómanum saman við í lokin og hrærið vel saman. 

Dreifið skyrblöndunni yfir kexbotninn með sleif. 


Mér finnst rosalega gott að setja fersk ber ofan á kökur, þið getið notað hvaða ber eða ávexti sem þið viljið. Jarðarber og bláber eru í mínu eftirlæti svo ég notaði þau í dag. 


Sigtið smá flórsykri yfir kökuna og rífið endilega smávegis af súkkulaði yfir. Það gerir kökuna enn betri. Hún er best ef hún fær að vera lengi í kæli. Lágmark 3 klukkustundir en mér finnst líka gott að geyma hana yfir nótt. 

Algjör draumadís. Mikið er ég orðin spennt að gæða mér á henni með fjölskyldunni minni í kvöld. 

Ég mæli með að þið prófið og njótið. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir