Friday, April 17, 2015

Ómótstæðileg skyrkaka með hvítu súkkulaði og jarðarberjum


Skyrkökur eru ómótstæðilegar og það sakar ekki að það tekur enga stund að setja slíka köku saman. Það þarf ekki að baka eitt né neitt. Ég byrja á því að gera botninn. Í þennan botn fer 1 ½ pakki af lu bastogne kexkökum og 150 g af bræddu smjöri.

Botn
1 pk lu bastogne kex
150 g smjör

Kexið og smjörið er maukað vel saman í matvinnsluvél. Þrýstið kexblöndunni á botninn og upp með börmunum á bökunarforminu. Geymið botninn í kælið á meðan þið útbúið fyllinguna. 

Fylling
500 g vanilluskyr
3 dl rjómi
1 msk flórsykur
1 tsk vanilluduft eða paste
100 g hvítt súkkulaði, brætt
Ber og súkkulaði eftir smekk notað til að toppa 

Aðferð:1. Léttþeytið rjóma og leggið til hliðar.
2. Hrærið skyrinu, flórsykrinum og vanillu saman í smá sund. 
3. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og kælið. 
4. Blandið súkkulaðinu varlega saman við skyrblönduna með sleif og bætið rjómanum saman við í lokin með sleif að sjálfsögðu. 
5. Setjið skyrblönduna ofan á kexbotninn og kælið í minnsta kosti þrjár klukkustundir eða lengur. Best yfir nótt. Það er hægt að frysta þessa köku.

Skreytið kökuna að vild en mér finnst best að sáldra smá hvítu súkkulaði yfir kökuna og nokkrum jarðarberju. 
Ekki missa af Matargleði Evu á fimmtudagskvöldum klukkan 20.10. 
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, April 12, 2015

Gómsætir ostaréttir sem kitla bragðlaukana


Í síðasta þætti af Matargleði Evu heimsótti ég mygluostabú MS í Búðardal og fékk að fylgjast með ostaframleiðslunni. Hér eru tveir ostaréttir sem eru ofboðslega góðir og ég fæ ekki nóg af. Ofnbakaðir ostar eru hreint afbragð og ostasalatið er fullkomið á veisluborðið. 

Gómsætir ostaréttir sem ég mæli með að þið prófið. 


Ofnbakaður Stóri Dímon

1 Stóri Dímon
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksrif, marið 
1 msk smátt saxað rósmarín

Aðferð: 

Blandið olíu, hvítlauk, rósmaríni og ögn af salti saman í skál. Stingið hníf í ostinn og snúið aðeins upp á hnífinn, hellið blöndunni yfir ostinn. Bakið við 180°C í 8 - 10 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gylltur. 

Gott að vita! Það er hægt að baka ostinn í öskjunni sem hann kemur í. Það getur samt komið fyrir að askjan sem osturinn kemur í brotni í ofninum en þá er ágætt að setja öskjuna ofan í eldfast mót en þannig tryggjum við að osturinn haldi sér á sínum stað. 
Ostasalatið sem slær alltaf í gegn 

1 Mexíkóostur
1 Hvítlauksostur
1 dós sýrður rjómi
1 dós Grískt jógúrt 
1/4 púrrulaukur, smátt saxaður 
1 rauð paprika, smátt skorin
rauð vínber, skorin í tvennt 


Aðferð:

Skerið púrrulauk eftir endilöngu, skolið og skerið síðan í litla bita. Skerið paprikuna einnig mjög smátt og vínberin í tvennt. Blandið sýrða rjómanum og gríska jógúrti saman við og bætið ostinum saman við í lokin, mér finnst best að skera hann fremur smátt. Blandið öllu vel saman og berið fram með góðu brauði eða kexi. Salatið er betra ef það fær að vera í kæli í klukkustund áður en það er borið fram. 


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Friday, April 10, 2015

Matargleði Evu. Fjórði þáttur, dögurður.

Dögurður eða brunch er fullkomin máltíð sem sameinar bæði morgunmat, hádegismat og í flestum tilvikum ljúfar samverustundir með fjölskyldu og vinum. Hér koma uppskriftir að gómsætum réttum sem ég bjó til í matreiðsluþætti mínum á Stöð 2, Matargleði Evu sem eru sýndir á fimmtudagskvöldum kl 20.10.


Amerískar pönnukökur

5 dl. hveiti 
3 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt 
2 Egg
4 dl. AB mjólk
2 -3  dl. mjólk 
3 msk. smjör (brætt) 
1 tsk. vanilla extract eða vanillusykur
1 msk. sykur 

Aðferð:


Sigtið hveiti, lyftiduft og salt saman. Bræðið smjör og leggið til hliðar. Pískið egg og mjók saman í skál. Hellið eggjablöndunni saman við hveitið, bætið smjörinu einnig saman við og hrærið vel í með sleif. Bætið ab mjólkinni út í og hrærið þar til þið eruð ánægð með þykktina á deiginu. Í lokin er ágætt að bæta smá sykri út í deigið. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa í kæli í lágmark 30 mínútur áður en þið steikið pönnukökurnar.

Pönnukökurnar eru síðan steiktar upp úr smjöri á pönnu í nokkrar mínútur, ca. 2 mínútur á hvorri hlið. Þegar loftbólur myndast í deigið þá eigið þið að snúa þeim við.

Þetta er frábær grunnuppskrift að pönnukökum en stundum bæti ég eplum, bláberjum, bönunum eða súkkulaðispænum út í deigið. Prófið ykkur áfram með það hráefni sem ykkur finnst gott... pönnukökur eru einfaldlega ljúffengar!

Bláberjasíróp

3 dl appelsínusafi
3 dl sykur
3 dl bláber, fersk eða frosin
safi og börkur af einni sítrónu

Aðferð:

Hitið sykur og appelsínusafa í potti, þegar sykurinn er bráðnaður og þetta lítur út eins og síróp má bæta bláberjum, sítrónuberki og safa út í pottinn og hræra vel í blöndunni. Leyfið bláberjasírópinu að malla við vægan hita í 30 – 40 mínútur.


Morgunverðarkartöflubaka með Chorizo pylsu

1 msk ólífuolía
2 stórir laukar, smátt skornir
200 gr chorizo pylsa, smátt skorin 
1 rauð paprika
2 hvítlauksrif, marin
4 bökunarkartöflur, skornar í teninga
salt og nýmalaður pipar
4 – 5 egg
fersk steinselja

Hitið ofninn i 180°. Hitið olíu á  pönnu og steikið laukinn við vægan hita þar til laukurinn verður mjúkur. Bætið chorizo pylsunni, paprikunni og hvítlauknum út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur. Bætið kartöfluteningum saman við og kryddið með salti og pipar. Setjið blönduna í eldfast mót þegar kartöflurnar eru eldaðar í gegn. Brjótið eggin yfir og bakið við 180°C í ca. 10 mínútur eða þar til eggin eru fullelduð. Þegar kartöflubakan kemur út úr ofninum er gott að saxa niður ferska steinselju og strá yfir réttinn


Ávaxtabakki er alltaf góð hugmyndir, ávextir eru bæði ótrúlega góðir og algjört augnayndi. Ég skar niður mína eftirlætis ávexti sem eru melóna, ananas, kíví, jarðarber og bláber. 


Granóla, grískt jógúrt, fersk bláber og hunang fara einstaklega vel saman. Hér finnið þið uppskrift að gómsætu granóla.


Ég vona að þið njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Páskarnir mínir


Páskarnir voru mjög ljúfir hjá okkur, það var eingöngu slappað af og borðað. Það var gott að hafa fjölskylduna heima en þau búa í Noregi, það vantaði að vísu eldri systur mína hana Mareni og fjölskyldu hennar sem við söknuðum sárt. Páskarnir ganga einfaldlega út á það að njóta og vera með fólkinu sínu. Ég var endurnærð eftir þetta frí, að vísu var ég mjög spennt að hvíla súkkulaðið í bili enda borðaði ég á mig gat og meira til, það var ekki annað hægt þegar móðir mín töfrar fram veislumat á hverjum degi. Mig langaði að deila nokkrum myndum með ykkur og ég vona að þið hafið átt góða páska.


Ljúffengar andabringur í appelsínusósu a'la mamma 


Súkkulaðimúsin sem slær alltaf í gegn Nautalund með piparostasósu og gómsætu meðlæti, uppskriftin birtist hér á blogginu mjög fljótlega


Á páskadag var hægeldaður lambahryggur, ég sá um eldamennskuna þennan dag og leyfði mömmu að slappa af á meðan.


Bestu vinkonur, Rósirnar tvær. 


Að sjálfsögðu var spjallað mikið við fólkið okkar í Noregi.


Eftir allan þennan mat var voða gott að hreyfa sig aðeins, ó já það er alveg nauðsynlegt.


Ingibjörg Rósa stækkar með hverjum deginum sem líður og nú er hún sífellt að koma með eitthvað nýtt. Nú getur hún klappað, vinkað og sýnt okkur hvað hún er stór. Að sjálfsögðu erum við svakalega montin og það er svo skemmtilegt að fylgjast með henni þroskast. 


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, April 4, 2015

Súkkulaðikaka með Frosting kremi


Afskaplega er notalegt að vera í páskafríi, það hefur verið mikið að gera, mars hefur flogið áfram og þess vegna er sérstaklega ljúft að byrja daginn í rólegheitum með Hadda og Ingibjörgu Rósu. Páskarnir eru tími til að njóta, bæði með fjölskyldunni og góðum mat. Í gær fórum við í matarboð og ég sá um eftirréttinn, ég ákvað að baka eina góða súkkulaðiköku og skreyta hana með gulu frosting kremi. Frosting krem er létt og loftkennt, fullkomið ofan á súkkulaði og vanillukökur. Ég skreytti kökuna með uppáhalds súkkulaði eggjunum mínum, ég fæ ekki nóg af þeim. Hér kemur uppskriftin, ég mæli með að þið prófið þessa um páskana. 

 Súkkulaðibotnar

3 bollar Kornax hveiti (Amerísk mæling, 1 bolli = 2,4 dl)
2 bollar sykur
3 Brúnegg
2 bollar AB mjólk
1 bolli bragðdauf olía
5 msk kakó
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
2 tsk vanilludropar eða sykur

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman í skál, hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í smurð bökunarform og bakið við 180°C í 25 - 30 mínútur. Það er gott ráð að stinga hníf í kökuna eftir 25 mínútur og ef hnífurinn kemur hreinn upp úr er kakan klár en annars þarf hún lengri tíma. Ofnar eru auðvitað eins misjafnir eins og þeir eru margir.

Það er mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg áður en hún er skreytt með kreminu.


Vanillu Frosting

4 eggjahvítur
2 1/2 dl sykur
1 tsk vanillusykur

Aðferð: Þeytið eggjahvítur og sykur saman þar til froða fer að myndast. Færið skálina, setjið yfir sjóðandi vatn og hrærið þar til blandan byrjar að þykkna og hitna. Takið þá skálina frá vatninu og hrærið áfram í hrærivélinni, bætið vanillu saman við á því stigi. Hrærið áfram þar til kremið kólnar og verður orðið stíft. (Alveg eins og með marengs, þið eigið að geta hvolft skálinni án þess að kremið hreyfist) Ég setti nokkra dropa af gulum matarlit út í kremið í lokin, mér finnst gel matarlitirnir frá Wilton lang bestir. Mæli með þeim. 
 Ég vona að þið eigið frábæra páska með fjölskyldu og vinum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, April 2, 2015

Instagram myndir @evalaufeykjaran


 1. Ingibjörg Rósa heimsótti mömmu sína í vinnuna og kunni bara vel við sig fyrir framan myndavélarnar. 
2. Vesturbæjarísinn klikkar ekki. 


 3. Á myndinni má sjá tvær Rósir að fagna því að sú stutta er byrjuð að klappa. 
4. Forsíðumynd á Lífinu, fylgirit Fréttablaðsins. 


 5. Svarið er nei, það er ekki hægt að vera meira krútt!
6. Ljúfur dagur í New York með heimsins bestu vinum, Stefán minn er bakvið myndavélina. 


7. Að sjálfsögðu var súkkulaðieggjagleði í vinnunni í vikunni. 
8. Það er ekkert betra í þessum heimi en þetta knús (og þessar kinnar).


9. Ég er heppnust, vinn með eintómum snillingum. 
10. Við Haddi fórum á árshátíð Icelandair um daginn, það var mjög skemmtilegt. 

 Ég vona að þið eigið gott páskafrí kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, March 28, 2015

Hægeldað lambalæri með ljúffengu kartöflugratíni og piparostasósu.


Að elda mat í ofni er einföld matargerð, það er algjör óþarfi að standa yfir henni þó svo að hún taki stundum langan tíma. Það er ósköp notalegt að hafa lamb inn í ofni yfir daginn, ilmurinn um heimilið verður svo góður. 

Hægeldað lambalæri 

1 lambalæri, rúmlega 3 kg
Salt og nýmalaður pipar
Lambakjötskrydd 1 msk t.d. Bezt á Lambið
Ólífuolía
3 stórir laukar, grófsaxaðir
1 heill hvítlaukur, skorinn í tvennt, þversum
2 fenníkur (fennel), skornar í fernt
3 sellerístilkar, grófsneiddir
5 gulrætur
1 rauð paprika
700 ml grænmetissoð
3 greinar tímían
2 greinar rósmarín
Handfylli fersk steinselja


Aðferð.

1.      Hitið ofninn í 120°C.
2.      Finnið til stóran steikarpott eða stórt eldfast mót.
3.      Leggið lærið í steikingarpottinn eða mótið, veltið upp úr ólífuolíu og kyddið með salti, pipar og lambakjötkryddi.
4.      Bætið grænmetinu í steikarpottinn/eldfasta mótið.
5.      Hellið soði í pottinn. Lokið pottinum eða leggið álpappír þétt yfir mótið.
6.      Bakið lærið í miðjum ofni í sjö klukkustundir.
7.      Þegar 30 mínútur eru eftir af eldunartímanum er lokið eða álpappírinn tekinn af, fínsöxuðum kryddjurtum (steinselju, tímían og rósmarín ) og  hitinn í ofninum hækkaður í 200°C. Þá verður puran dökk og stökk.
8.      Það er mikilvægt að leyfa kjötinu að hvíla í lágmark 20 mínútur áður en þið berið það fram.


  
Ljúffengt kartöflugratín

900 g kartöflur, mér finnst best að nota bökunarkartöflur
8 dl rjómi (það er gott að nota matreiðslurjóma til helminga)
1  laukur, skorinn í strimla
1 kjúklingateningur
1 msk blandað krydd t.d. Bezt á allt
salt og pipar
rifinn ostur

Aðferð:

1. Kartöflurnar skolaðar vel og skornar í sneiðar ca. ½ cm
2. Laukur skorinn niður og steiktur upp úr smjöri í smá stund. Kartöflum, rjóma, kjúklingatening og kryddi er blandan saman í pottinum.  
3. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur  eða þar til kartöflurnar eru orðnar vel mjúkar.
4. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200°C í ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.


Piparostasósa
Smjör

1 msk smjör eða olía
250 g sveppir, skornir í sneiðar
1 – 2 tsk lambakjötskrydd t.d. Bezt á Lambið
1/2 l rjómi
1/2-1 piparostur, skorin í smáa bita
½ kjúklingateningur

Aðferð: 


 1. Bræðið smjör í potti. Látið sveppina malla við vægan hita í smjörinu í nokkrar mínútur. Kryddið til með lambakjötskryddi. 
 2. Hellið rjóma yfir og bætið piparosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita um stund. Hrærið í á meðan og passið að osturinn brenni ekki við.
 3. Bætið tening í pottinn og leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur. 
 4. Þessi sósa er jafn góð heit og köld, það er upplagt að bera hana fram með grillmatnum í sumar. 

Algjör sælkeramáltíð sem allir ættu að prófa. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Sunday, March 22, 2015

Möndlukakan hennar mömmu


Möndlukakan hennar mömmu vekur upp skemmtilegar minningar úr æsku en mér þótti engin kaka jafn góð og möndlukakan með bleika kreminu. Mamma bakaði þessa köku í vikunni og hún kláraðist mjög fljótt, það var þess vegna alveg tilvalið að baka hana aftur í gær og deila uppskriftinni með ykkur. Mamma er ein af þeim sem fylgir sjaldan uppskrift og bakar og eldar eftir minni, ég náði þó að fullkomna uppskriftina og kakan heppnaðist mjög vel. Það er eitthvað við þessa silkimjúku köku sem ég fæ bara ekki nóg af og það virðast flestir vera á sama máli. Þessi kaka er ofureinföld, fljótleg og algjörlega ómótstæðileg. 

Ef þið viljið slá í gegn í sunnudagskaffinu þá mæli ég með þessari. 


Möndlukakan hennar mömmu

200 g flórsykur
200 g smjör, við stofuhita
2 Brúnegg
230 g Kornax hveiti 
1 tsk lyftiduft 
1 tsk möndludropar
1 1/2 dl sjóðandi heitt vatn 

Aðferð:
 1. Hitið ofninn í 175°C. 
 2. Hrærið flórsykri, smjöri og eggjum saman í 2 - 3 mínútur eða þar til blandan verður orðin létt og ljós. 
 3. Bætið hveiti og lyftidufti út í blönduna og hrærið vel. 
 4. Hellið möndludropum og vatni saman við í lokin og hrærið vel eða þar til deigið verður slétt og silkimjúkt. 
 5. Smyrjið hringlaga form og hellið deiginu í formið, bakið við 175°C í 30 mínútur. 
Kælið kökuna á meðan þið útbúið bleika kremið. 

Bleikur glassúr
 Það sem einkennir möndlukökuna góðu er bleiki fallegi glassúrinn. 


50 g smjör, brætt
150 - 200 g flórsykur
Vatn eftir þörfum
Möndludropar, magn eftir smekk (c.a. 1/2 teskeið)
Bleikur matarlitur, magn eftir smekk (þið getið líka notað Ríbena sólberjasafa)

Aðferð:
 1. Bræðið smjör í potti. 
 2. Blandið flórsykrinum saman við og hrærið stöðugt, bætið vatninu saman við og hrærið þar til þið eruð ánægð með áferðina á kreminu. 
 3. Ég setti smávegis af möndludropum í kremið en það er smekksatriði. 
 4. Hellið kreminu yfir kökuna og berið strax fram. 

Njótið vel kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Saturday, March 21, 2015

Mexíkósk pizza

Um helgar þá nýt ég þess að borða eitthvað gott og á föstudögum finnst mér eiginlega nauðsynlegt að fá mér pizzu, það eru örugglega margir sem borða pizzu á föstudagskvöldum enda er ágætt að enda vinnuvikuna á góðum mat og sjónvarpsglápi fram eftir kvöldi, það er ekkert verra að maula á súkkulaði á meðan. Ég útbjó gómsæta mexíkóska pizzu sem mig langar að deila með ykkur, ég var svöng þegar ég fór í búðina og keypti allt það sem mig langaði í. Það er auðvitað lykilregla að fara ekki út í búð svöng, ég keypti allt í taco og þegar heim var komið ákvað ég að útbúa pizzu með mexíkósku ívafi. Einföld og bragðmikil pizza sem ég mæli með að þið prófið.


Ítalskur pizzabotn 
 Þessi uppskrift er aftan á hveitipokanum sem ég nota yfirleitt þegar ég baka pizzur og brauð, mjög góð uppskrift.

500 g Kornax hveiti (Í bláu pökkunum)
2,5 dl volgt vatn
7,5 g þurrger
0,5 dl olía
1 tsk sjávarsalt
1 tsk sykur

Aðferð:

 1. Gerið er leyst upp í volgu vatni 
 2. Kornax hveiti, sykri, salti og olíu er bætt í og hnoðað í vél í um það bil 6 - 10 mínútur. 
 3. Deigið er látið standa í 45 - 60 mínútur við stofuhita og pizzabotn mótaður.
 4. Setjið fyllinguna á pizzuna og bakið við 180°C (blástur) í 15 - 18 mínútur eða þar til botninn er gullinbrúnn, ég tók botninn minn út of snemma og þess vegna er hann í ljósari kantinum. 
Mexíkósk hakkblanda 

olía 
1 rauðlaukur, smátt saxaður
1 msk vorlaukur, smátt saxaður
6 - 8 sveppir, smátt skornir
500 g nautahakk
salt og nýmalaður pipar 
taco spice mix, ég notaði frá Santa Maria
2 dl vatn
2 dl sýrður rjómi 

Aðferð: 
 1. Hitið olíu á pönnu og steikið laukana þar til þeir eru mjúkir
 2. Bætið sveppum út á pönnuna og hakkinu
 3. Kryddið til með salti, pipar og taco kryddblöndu
 4. Þegar hakkið er alveg að verða tilbúið er gott að hella vatninu og bæta sýrða rjómanum saman við en með því að bæta sýrða rjómanum út á pönnuna verður hakkið safaríkara og bragðbetra. 
 5. Dreifið hakkinu yfir pizzabotninn, sáldrið vel af osti yfir hakkið. Ég noti bæði venjulegan ost og mexíkóost sem ég var búin að rífa niður. 

Þegar pizzan kom út úr ofninum skar ég niður paprikur, ólífur, tómata, ferska steinselju og lét ofan á pizzuna. Í lokin sáldraði ég nachos flögum og hellti smávegis af sýrðum rjóma yfir pizzuna. Algjört lostæti. 

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir